Ummæli Sverris Ólafssonar, meðdómara í Aurum-máli sérstaks saksóknara í héraðsdómi Reykjavíkur einkennast af andúð og heift gegn sérstökum saksóknara. „Hann virðist hafa einhverja fordóma gangvart embætti sérstaks saksóknara og það er ekki gott fyrir dómara sem er nýbuinn að standa í þýðingarmiklu máli að tala svona,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi Hæstaréttardómari. Hann ræddi um málið með lögmanninum Sveini Andra Sveinssyni í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Eins og áður hefur komið fram er Sverrir bróðir Ólafs Ólafssonar, fjárfestis og eins af sakborninum í Al Thani-máli sérstaks saksóknara. Sakborningar voru sýknaðir í Aurum málinu í síðustu viku en Ólafur hlaut þriggja og hálfs árs dóm í Al Thani-málinu þegar dómur féll í því fyrir síðustu jól. Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara, var ekki kunnugt um ættartengslin fyrr en eftir að sakborningar voru sýknaði í Aurum-málinu. Hann hefur sagst hafa mótmælt skipan Sverris sem sérfróðs meðdómara í Aurum-málinu ef hann hefði vitað að Sverrir er bróðir Ólafs.

Sverrir sagði um ummæli sérstaks saksóknara: „Mér finnst viðbrögð hans hæpin og mér finnst þetta bera vott um örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir og hann grípur til þeirra á erfiðum tímum þegar trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.“

Sveinn Andri sagði að af ummælum Sverris skíni í gegn persónulega andúð og heift í garð sérstaks saksóknara. „Maður veltir þá fyrir sér, er hún þá tilkomin eftir þessi ummæli sérstaks eða var þetta kannski hans persónulega afstaða allan tíman?“ spurði Sveinn Andri. Hvorugur taldi þó að fyrirfram hafi Sverrir ekki verið óhæfur sem meðdómari.

Sveinn Andri taldi í lagi ef dómari tjái sig um mál eftir að því er lokið.