The Reykjavík Edition, nýja Marriott hótelið í miðbænum, hefur sagt upp 27 manns en uppsagnirnar ná til starfsfólks úr öllum deildum. Dennis Jung, framkvæmdastjóri hótelsins staðfestir þetta við mbl.is .

Hann segir að eftirspurn hafi ekki verið jafn mikil og væntingar stóðust til, m.a. vegna Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Hann bendir einnig á að harðar sóttvarnarreglur hafi haft mikil áhrif á ferðamannabransann. Dennis segir þó að engar breytingar verði á starfsemi hótelsins þrátt fyrir uppsagnirnar.

„Við erum ekki að loka neinu á hótelinu. Við höldum starfseminni áfram með sama fjölda herbergja, veitingastaðurinn er opinn og barinn er opinn. Við drögum ekki úr þjónustu á hótelinu,“ hefur mbl.is eftir Dennis.

Reykjavík Edition hótelið var opnað í október síðastliðnum. Í viðtali við Viðskiptablaðið sagði Dennis að til að byrja með verða tvær hæðir af fimm opnar gestum eða um 106 af 253 herbergjum hótelsins.

Þegar hótelið opnaði í október var auglýst sérstakt opnunartilboð þar sem hægt væri að fá herbergið með 25% afslætti frá 53.438 krónum nóttina. Samkvæmt bókunarvél hótelsins er nú hægt að bóka tveggja manna herbergi á hótelinu á 50 þúsund krónur nóttina.