Sænski tæknirisinn Ericsson hefur tekið ákvörðun um að segja upp nær 20% af starfsfólki sínu í Svíþjóð. Þetta kom fram í tilkynningu frá félaginu fyrr í dag. Um er að ræða 3.900 störf sem glatast, en 3000 þessara starfa eru tengd framleiðslu.

Aukin samkeppnis hefur valdið því að fyrirtækið hefur átt erfitt uppdráttar. Hlutabréf í félaginu hafa fallið um nær 25% á þessu ári og á sama tíma hafa stjórnmálamenn komið með yfirlýsingar um leiðir sem þeir vilja fara til þess að bjarga störfunum.

Alls starfa um 116.500 manns hjá fyrirtækinu á heimsvísu. Stærstu fjárfestar fyrirtækisins fóru fram á forstjóraskipti í júlí, en þeir eru ósáttir við frammistöðu fyrirtækisins hingað til. Á síðasta ári fór félagið í samstarf við Cisco í Bandaríkjunum, en fjárfestar hafa ekki enn séð mikinn hag í því samstarfi.

Þrátt fyrir að hafa sagt upp 3.900 störfum, hefur fyrirtækið lofað að ráða til sín 1.000 rannsóknarmenn og forritara á næstu þremur árum. Árið 2014 réðist fyrirtækið í umfangsmikla endurskoðun og var stefnan þá sett á að hagræða um rúmlega 9 milljarða  sænskra króna, sem jafngildir um 1,1 milljarði Bandaríkjadala.