IAG, móðurfélag flugfélaganna British Airways og Iberia hefur kynnt endurskipulagningaráætlun fyrir spænska flugfélagið. Í henni er gert ráð fyrir því að starfsmönnum verði fækkað um 4.500 og að flugvélum félagsins, sem nú eru 156 talsins, verði fækkað um 25. Þá á að minnka leiðakerfi flugfélagsins um 15%.

Á Iberia að leggja áherslu á þær flugleiðir sem mestum arði skila. Ef áætlunin skilar þeim árangri sem að er stefnt á að stöðva hallarekstur þess fyrir mitt næsta ár og auka hagnað þess um að minnsta kosti 600 milljónir evra.