Norðanfiskur ehf. hefur ákveðið að draga úr framleiðslu á vörum fyrir erlenda markaði og fyrirhugar að loka annarri af tveimur starfsstöðvum félagsins á Akranesi. Greinir félagið frá þessu í fréttatilkynningu.

Starfsstöðin sem um ræðir er við Bárugötu 8-10 en í þeirri stöð hefur m.a. farið fram vöruþróun og framleiðsla sjávarfangs til útflutnings í samvinnu við móðurfélag Norðanfisks, HB Granda. Einnig hefur þar verið starfrækt pökkun á ferskum fiski í neytendapakkningar fyrir innanlandsmarkað og verður sú framleiðslulína færð inn í aðalstarfsstöð félagsins að Vesturgötu 5. Sjö starfsmenn missa störf sín vegna lokunarinnar en hjá félaginu starfa áfram um 35 manns.

Tilgangur breytinganna er sagður vera að einfalda og styrkja rekstur félagsins. Norðanfiskur sérhæfir sig í virðisaukandi vinnslu sjávarafurða fyrir stóreldhús og veitingastaði sem og framleiðslu í neytendapakkningar fyrir verslanir. Starfsemi Norðanfisks á innanlandsmarkaði hefur gengið vel en ekki sem skyldi á erlendum mörkuðum. Þess vegna er sú ákvörðun tekin núna að einblína alfarið á innlenda viðskiptavini.

„Við höfum verið í ákveðnu þróunarstarfi tengt útflutningi á íslensku sjávarfangi í neytendapakkningum inn á verslanakeðjur erlendis. Sú starfsemi hefur ekki þróast eins og vonir stóðu til en sölu- og markaðsstarf á fjarlægum mörkuðum er kostnaðarsamt og hefur ekki reynst fyrirtækinu arðbært. Við höfum því ákveðið að styrkja okkur enn frekar í því sem við gerum best, en það er að þjónusta okkar viðskiptavini hérna heima á Íslandi eins vel og mögulegt er með þeim gæðavörum sem þeir þekkja svo vel. Það er alltaf erfitt að taka ákvarðanir sem fækka störfum en þessi ákvörðun er til þess fundin að styrkja kjarnastarfsemi félagsins á heimamarkaði," segir Sigurjón Gísli Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Norðanfiski í tilkynningunni.