Uppgjör Vodafone á öðrum ársfjórðungi var ágætt, að mati IFS Greiningar . Fyrirtækið, sem varð fyrir vonbrigðum með uppgjör Vodafone á fyrsta fjórðungi, segir bætta afkomu felast einkum í lækkun ýmiss kostnaðar á móti tekjulækkun, s.s. 4,5% samdrætti í vörusölu á milli ára. Vodafone hagnaðist um 207 milljónir króna á öðrum fjórðungi sem er 138% aukning á milli ára. Þetta er nokkurn vegin í takt við væntingar IFS Greiningar .

Bent er á það í umfjöllun IFS Greiningar að tekjur af farsímaþjónustu Vodafone, stærsta tekjupósti félagsins, lækkuðu á milli ára á fjórðungnum. Nemur tekjulækkunin 280 milljónum króna eða tæpum 10% á fyrri helmingi ársins. Á móti jukust tekjur af gagnaflutningum um 89 milljónum króna eða 7% og af sjónvarpsþjónustu um 141 milljón króna eða 29%. Annar rekstarkostnaður lækkar umtalsvert á milli ára.