Góðar undirtektir voru í útboði Lánasjóðs sveitarfélaga (LSS) síðastliðinn föstudag þar sem skuldabréfaflokkurinn LSS150224 stóð fjárfestum til boða. Þannig bárust alls tilboð í flokkinn fyrir 1,2 milljarða króna að nafnvirði á ávöxtunarkröfu sem var á bilinu 3,82%-4,00%. Eftirspurnin var þó helmingi minni en hún var í janúar en engu að síður teljum við að LSS-menn megi vera  sáttir við niðurstöðuna. Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag þar sem fjallað er um útboðið.

„Þannig ákvað sjóðurinn að taka tilboðum fyrir 740 milljónir króna að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 3,87%. Seldi sjóðurinn þar með bréf fyrir nokkuð hærri fjárhæð en hann hafði upphaflega lagt upp með að selja, og niðurstöðukrafan í útboðinu nú var jafnframt 16 punktum lægri en hún var í janúarútboðinu, sem er í takti við þá þróun sem verið hefur á markaði. Útgáfa bréfa í LSS24-flokknum er helsta fjármögnunarleið LSS til lánveitinga til sveitarfélaga og eftir útboðið nú er flokkurinn orðinn 24,3 milljarðar króna að stærð. Þetta kom m.a. fram í tilkynningu sem LSS birti nú í morgun,“ segir í Morgunkorni.