Stjórn Sjómannasambands Íslands hefur sent frá sér harðorða yfirlýsingu í kjölfar frétta þess efnis að 22 skipverjar af 25 á Júlíusi Geirmundssyni ÍS-270 hafi smitast af Covid - 19 veirunni í síðustu veiðiferð skipsins. Eins þess sem fjallað hefur verið um í dag að sóttvarnaryfirvöld á Vestfjörðum hafi ítrekað óskað eftir því að skipinu yrði siglt til hafnar í upphafi veiðiferðar til að hægt væri að taka sýni til að ganga úr skugga um hvort skipverjarnir væru sýktir af kórónuveirunni. Þessu var hafnað af útgerðinni, fullyrðir sóttvarnarlæknir á Vestfjörðum. Útgerðin hafði sent frá sér yfirlýsingu þar sem aðrar skýringar voru gefnar.

Stjórn Sjómannasambands Íslands lítur þetta atvik mjög alvarlegum augum, segir á heimasíðu sambandsins.

Yfirlýsing stjórnar Sjómannasambands Íslands:

Í upplýsingum frá umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum kemur fram að í byrjun veiðiferðar Júlíusar Geirmundssonar ÍS - 270, þar sem stærsti hluti áhafnarinnar veiktist af kórónuveirunni, hafi verið óskað eftir því við útgerðina að skipið kæmi í land vegna veikinda skipverja um borð. Beiðnin var ítrekuð þegar leið á veiðiferðina og fleiri veiktust. Fram kemur að útgerðin hafi hafnað þessum beiðnum sóttvarnalæknisins.

Stjórn Sjómannasambands Íslands lítur viðbrögð útgerðarinnar alvarlegum augum þar sem ekki dylst nokkrum manni að farsótt geisar í landinu. Samtök sjómanna og útgerðarmanna sendu í byrjun faraldursins út tilmæli til útgerða og sjómanna hvernig ætti að bregðast við kæmu upp veikindi um borð. Þau voru og eru alveg skýr. Útgerðin virðist hafa hunsað þessi tilmæli með öllu og hélt skipinu til veiða þrátt fyrir að skipverjar veiktust hver af öðrum. Í þessu tilviki virðist útgerð einungis hafa hugsað um fjárhagslegan ávinning útgerðarinnar frekar en heilsu og velferð áhafnar sinnar. Sjómannasamband Íslands fordæmir þá lítilsvirðingu sem útgerðin sýndi áhöfn skipsins með því að halda áfram veiðum þrátt fyrir mikil veikindi um borð.

Íslenskir sjómenn hafa unnið mjög náið með sínum útgerðum og sóttvarnaryfirvöldum til að reyna að koma í veg fyrir að smit berist um borð í skip og hafa þeir teygt sig ansi langt í þeim efnum umfram það sem kjarasamningar gera ráð fyrir.

Sjómannasamband Íslands krefst þess að íslenskar útgerðir fari að umræddum tilmælum í hvívetna og stofni ekki lífi og limum áhafna sinna í hættu að óþörfu á þessum hættutímum.