Greining Íslandsbanka segir vaxtalækkun Seðlabankans koma á óvart, en spár hafi legið á bilinu frá óbreyttum vöxtum í 0,25 prósentustiga lækkun.

Íslandsbanki hafi spáð óbreyttum vöxtum líkt og meirihluti spáaðila, og segja þeir að peningastefnunefnd komi enn á óvart með ákvörðun sinni í morgun um lækkun stýrivaxta um 0,25 prósentustig.

Þriðja af fjórum sem er þvert á spár

„Talsverð viðbrögð hafa verið á innlendum fjármálamarkaði en óverðtryggð ávöxtunarkrafa hefur lækkað um 0,13-0,22 prósentur. Lækkun verðtryggðrar kröfu hefur verið minni. Einnig hafa innlend hlutabréf hækkað nokkuð í verði,“ segir í frétt Greiningar Íslandsbanka um málið.

„Er þetta þriðja vaxtaákvörðunin af fjórum frá miðju ári þar sem vaxtaákvörðun Seðlabankans er þvert á flestar spár, sem vekur spurningar um fyrirsjáanleika peningastefnunnar.

Aðspurður að því á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunarinnar sagði Seðlabankastjóri að það væri gott að hafa fyrirsjáanleika en það væri ekki alltaf hægt sérstaklega nú þegar um væri að ræða mjög miklar fínstillingar á stýrivöxtum bankans.“

Spáð styrking krónunnar þegar komin fram

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um þá benda þeir á að stærsti hluti styrkingar krónunnar em bankinn spáði að yrði fram á næsta ár væri þegar komin fram.

Segir greining Íslandsbanka að nefndin sé núna að bregðast við forsendum sem voru að mestu komnar fram fyrir lækkun stýrivaxta við síðustu vaxtaákvörðun.

Nefndin slær úr og í

„Virðist nefndin í yfirlýsingum sínum undanfarið slá nokkuð úr og í um hvort gengisþróun krónu sé í takti við væntingar þeirra eða gefi tilefni til breytinga á peningastefnunni eins og nú var raunin,“ segir í fréttinni.

Þar er vísað í skiptar skoðanir nefndarmanna á hvort lækka ætti vexti og orð Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra frá í morgun um að ákvörðunin hefði getað farið á hvorn veginn sem er síðast, en nefndin segist enn vera hlutlaus á hver næstu skref verði.

„Við spáum því að nefndin muni lækka stýrivexti bankans frekar á fyrri helmingi næsta árs,“ segir greiningin þó að lokum.