Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir vegtolla meingallaða innheimtuaðferð, að betra vegakerfið borgi sig sjálft og að skattar af bílum og umferð skila nú þegar miklum tekjum í ríkisjóð. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033.

Í umsögninni er farið yfir kosti og galla vegtolla, nauðsyn og ástæðu upptöku þeirra að því er segir í fréttatilkynningu frá samtökunm. Viðskiptablaðið hefur jafnframt fjallað ítarlega um hugmyndir um vegtolla, og lærdóminn sem fá má af Hvalfjarðargöngum.

FÍB er neytenda- og hagsmunasamtök hátt í 18 þúsund fjölskyldna bifreiðaeigenda og vegfarenda á Íslandi.

Í umsögninni segir m.a:

Vegtollar eru mun kostnaðarsamari en aðrar innheimtuaðferðir stjórnvalda af bílum og umferð. Kostnaður við vegtolla felst m.a. í dýrum tækjabúnaði, hugbúnaði, tengingum, innheimtukostnaði, viðhaldi, endurnýjun og almennum rekstri. Í Hvalfjarðargöngum nam þessi kostnaður þriðjungi af tekjum. Virðisaukaskattur er jafnframt innheimtur af vegtollum.

Samtals er áætlað að skattar á innflutning og notkun bíla skili ríkissjóði 80 milljörðum króna á árinu 2019. Aðeins hluti af heildartekjum ríkisins af bílum og umferð fer í nýbyggingu og viðhald vegakerfisins, eða 29 milljarðar af þessum 80 milljörðum króna.