Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Ívar Guðjónsson, forstöðumaður eigin viðskipta bankans, og tveir miðlarar handstýrðu verðmyndun hlutabréfa bankans og blekktu með því bæði kröfuhafa, stjórnvöld og samfélagið allt. Brotið er mjög umfangsmikið, að því er fram kemur í kæru sérstaks saksóknara á hendur þeim og tveimur öðrum fyrrverandi starfsmönnum bankans. Fréttablaðið fjallar um málið í dag og vísar í efni ákærunnar.

Ákæran er vegna tveggja mála, lánveitinga til félaganna Ímon til kaupa á hlutabréfa í bankanum og Azalea Resources Ltd. Ímon var í eigu fjárfestisins Magnúsar Ármann en Azalea Resources skráð á bresku Bresku Jómfrúreyjum og í eigu finnska fjárfestisins Ari Salmivuori, viðskiptafélaga Björgólfs Thors Björgólfssonar, eins af helstu hluthöfum gamla Landsbankans og sonar Björgólfs Guðmundssonar, formanns bankaráðs bankans. Félag Salmivuori fékk 3,8 milljarða króna 3. október 2008 til kaupa á hlutabréfum Landsbankans.