„Ormsson og Samsung Setrið voru fyrst allra fyrirtækja á raftækjamarkaði að lækka verð og flest önnur fyrirtæki á þessum markaði fylgdu í kjölfarið. Ályktanir ASÍ og yfirlýsingar eru því rangar og þau fyrirtæki sem voru í fararbroddi að lækka vöruverð vegna lækkunar vörugjalda koma verst út úr þessari könnun og eru hart dæmd af stærstu launþegasamtökum landsins.“

Þetta segir Einar Þór Magnússon, framkvæmdastjóri Ormsson, í tilefni af verðkönnun sem ASÍ birti niðurstöður úr í gær . Í verðkönnuninni kom fram að verðlækkanir á heimilistækjum vegna afnáms vörugjalda og lækkunar virðisaukaskatts sé mun minni en gera hafi mátt ráð fyrir.

Ormsson og Samsungsetrið hafa nú sent frá sér tilkynningu þar sem bent er á að öll verð í verslunum fyrirtækjanna hafi verið lækkuð sem nam lækkun vörugjalda þann 17. september 2014. Verðkönnun ASÍ hafi verið gerð í byrjun október og þá eftir að fyrirtækin höfðu lækkað sín verð.

ASÍ hafi því farið of seint af stað til að finna upphaflegu verðin þar sem verðlækkunin hafði þegar átt sér stað. Segja fyrirtækin að þau fyrirtæki sem voru síðust til þess að lækka sín verð komi best út úr könnuninni.