„Það er verið að lækka þennan markaða tekjustofn sem Fæðingarorlofssjóður hefur af almennu tryggingagjaldi. Ríkisstjórnin mun helminga tekjustofninn og færa yfir í almannatryggingar. Það er alveg ljóst að þetta setur framtíðarþróun fæðingarorlofsréttinda verulegar skorður," segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Fréttablaðið um væntanlegar breytingar sem gerðar verða á hlut Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldi launa. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir nærri helmingslækkun úr 1,28% í 0,65%.

Áhrif lækkunarinnar á stöðu Fæðingarorlofssjóðs er veruleg, en í svari félagsmálaráðherra við óundirbúinni fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar þingmanns um stöðu Fæðingarorlofssjóðs kom fram að á næsta ári verður gengið á eigið fé sjóðsins sem nemur 1,9 milljörðum króna. Samkvæmt áætlun verður bundið eigið fé sjóðsins 6,5 milljarðar í lok árs 2013 en verður 4,6 milljarðar árið 2014.

„Þau geta gengið ansi hratt á fé sjóðsins og að minnsta kosti verður svigrúm hans til frekari hækkunar á tekjuþakinu ekkert. Það verður ekki gert nema að hækka tryggingagjaldið enn frekar," segir Þorsteinn ennfremur.