Virðismatsgengi á hlutabréfum Vodafone er 24,2 krónur á hlut, að mati IFS Greiningar. Virðismatsgengið er 16% lægra en virði bréfanna stóð í eftir lokun markaða í gær. IFS mælir með sölu hlutabréfa í Vodafone.

IFS Greining sendi uppfært virðismat á hlutabréfum í Vodafone í gær, í kjölfar birtingar Vodafone á uppgjöri fyrsta ársfjórðungs. Í greiningu IFS, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, segir að uppgjörið hafi valdið vonbrigðum og það verið undir spám.

Markaðsgengi hlutabréfa í Vodafone var 30,1 króna á hlut í gær en bréfin lækkuðu um rúmlega 7% í viðskiptum yfir daginn. IFS telur virðismatsgengi á hlut vera 24,2 krónur, sem er 16% lægra en virði bréfanna í dag. Markgengi eftir 9 til 12 mánuði er 29 krónur á hlut að mati IFS.

Stjórnendur Vodafone sögðu þrjá þætti helst skýra lægri tekjur og afkomu félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins, en afkoman var neikvæð um 16 milljónir króna. Þeir sögðu samdrátt í einkaneyslu hafa minnkað farsímanotkun einstaklinga, breyttar uppgjörsaðferðir hafi haft neikvæð áhrif á fjórðungnum og rekstrarkostnaður hafi aukist. „Við trúum seinni tveimur skýringunum en erum efins um þá fyrstu. Veltum fyrir okkur hvort lækkandi farsímatekjur séu ekki einfaldlega þróun þar sem SMS og tölvupóstur á snjallsímum tekur í auknum mæli við af samtölum og fleiri samtöl færast á netið með Skype, Viber og álíka hugbúnaði,“ segir í greiningu IFS. Tekjur Vodafone af farsímaþjónustu lækkuðu um 9% milli ára.