Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að varðveisla Vodafone á smáskilaboðum (SMS) á vefsíðu fjarskiptafyrirtækisins sem voru eldri en sex mánaða samrýmdist ekki lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Skilaboðunum hafi átt að vera búið að eyða. Tölvuþrjótur braust inn í tölvukerfi Vodafone í fyrrahaust og komst yfir skilaboðin og voru mörg þeirra birt. Gengi hlutabréfa Vodafone hefur fallið um rúm 2,7% í Kauphöllinni í dag eftir að úrskurðurinn var birtur. Ekki eru mikil viðskipti með bréf félagsins en um hádegisbil nam hún 55 milljónum króna.

Um er að ræða sjö mál vegna lekamálsins sem Persónuvernd hefur úrskurðað í. Niðurstaða Persónuverndar í málunum er sú að kerfi Vodafone hafi verið ófullnægjandi.

RÚV segir um málið að tugur viðskiptavina Vodafone hyggist krefja fjarskiptafyrirtækið um bætur vegna málsins. Stjórnendur Vodafone uni úrskurði Persónuverndar og ætli ekki lengra með málið.

Síðan tölvuþrjóturinn braust inn í kerfi Vodafone hefur verið skipt um vefsíðu. Þá hefur nýr forstjóri verið ráðinn.