Tölvuleikjarisinn Zynga hefur tvisvar sinnum lagt fram yfirtökutilboð í leikjafyrirtækið Plain Vanilla á síðastliðnum tveimur vikum. Fyrra tilboðið hljóðaði upp á 100 milljónir dala, jafnvirði tæpra 12 milljarða króna. Hitt var lagt fram um síðustu helgi og var það hærra. Báðum tilboðum var hafnað, að því er fram kemur í fréttatímaritinu Kjarnanum í dag. Í Kjarnanum segir að hefði tilboði Zynga verið tekið hefðu hluthafar Plain Vanilla margfaldað fjárfestingu sína.

Í Kjarnanum segir að verði hafi ekki aðeins ráðið ferðinni heldur líka faglegur ágreiningur um hvert stefna ætti með spurningaleikinn QuizUp. Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Plain Vanilla, vildi ekki tjá sig um málið í samtali við Kjarnann.

Rúmur mánuður er síðan spurningaleikurinn kom út. Rúmar fjórar milljónir manna hafa náð í hann og var leikurinn um tíma vinsælasti app-leikur í heimi. Leikurinn er aðeins gerður fyrir iPhone-síma og önnur tæki frá Apple. Unnið er að gerð hans fyrir tæki sem keyra á Android-stýrikerfinu.