Fréttamiðlar í Norður-Kóreu greindu frá því að ríkisstjórnin hefði áhuga á því að stofna til viðræðna varðandi kjarnavopnadeilur þjóðarinnar við Bandaríkin. Fréttastofa United Press International segir frá þessu.

Þá segir í grein sem birt var á ríkisfréttastofu Norður-Kóreu að Bandaríkin þjáist af eins konar „sálfræðilegri afneitun", og neiti að „horfast í augu við þá staðreynd að Norður-Kórea búi svo sannarlega yfir kjarnasamrunavopnum.

„Sérfræðingar í kjarnavopnum um heim allan hafa sammælst um það, að Norður-Kórea sé ekki aðeins hæf um framleiðslu vetnissprengju, heldur séu slíkar sprengjur tiltölulega almennar í dreifingu. Þá hefur því löngu verið spáð að ríkið þrói með sér kjarnasamrunavopn," segir í greininni.

Í kjölfar tilraunasprenginga norður-kóreska hersins, þar sem talsmenn hafa lýst því yfir að tilraunavetnissprengja hafi verið sett af stað, hefur stuggur Bandaríkjamanna gagnvart aðgerðum einræðisríkisins vaxið.

Nýlega á öldungaþingi Bandaríkjanna voru samþykktar aðgerðir til viðskiptaþvingana gagnvart Norður-Kóreu, sem miða að því að takmarka magn fágætra málmtegunda sem gætu borist til landsins og verið notaðar í vopnaframleiðslu.