Að sögn Jónasar Sigurgeirssonar, forstöðumanns fjárfestatengsla hjá Kaupþing, hafa lögfræðingar bankans verið í sambandi við ritstjórn breska blaðsins The Sunday Times vegna fréttar blaðsins um úttektir af innlánareikningi félagsins, Kaupþing Edge.

Sagðist Jónas gera ráð fyrir afsökunarbeiðni í næstu útgáfu blaðsins en sér ritstjórn er á helgarútgáfunni, óháðri The Times.

Útgefendur Sunday Times hafa haft samband við þá sem dreifa efni úr blaðinu og beðið þá að taka umrædda grein úr umferð en hún var fjarlægð af vef blaðsins eftir að athugasemdir bárust.

Síðan gerðist það að blaðið Daily Mail birti frétt af svipuðum toga í morgun og sagði Jónas að haft hefði verið samband við ritstjórn blaðsins og væri einnig gert ráð fyrir afsökunarbeiðni frá þeim, væntanlega á morgun.

Sömuleiðis væri Daily Mail að gera ráðstafanir til að fréttin fari ekki víðar. Jónas vildi ekkert tjá sig um frekari aðgerðir af hálfu bankans.