Forsvarsmenn Skype, samskiptakerfis Microsoft, þvertaka fyrir að ný uppfærsla Skype sé til þess gerð að auðvelda aðgang og eftirlit yfirvalda með því sem fram fer í gegnum vefinn. Með Skype er meðal annars hægt að hringja á milli landa með tiltölulega lágum tilkostnaði og spjalla saman með smáskilaboðum á vefnum.

Yfirlýsing Skype kemur í kjölfar umræðu sérfræðinga um að breytingar sem nýlega voru gerðar á kerfinu þjóni þeim tilgangi að auðvelda aðgang að samskiptasögu notenda. Stjórnendur Skype sögðu í tilkynningu að breytingarnar væru einungis gerðar til þess bæta þjónustu og áreiðanleika fyrir notendur.

Því var þó bætt við tilkynninguna að upplýsingar verði ávallt sendar áfram til lögreglu ef tilefni þyki til.

Umræða um þessi mál hófst árið 2009 þegar Microsoft sóttu um einkaleyfi fyrir hugbúnað sem gerir það kleift að „taka um samtöl á milli að minnsta kosti tveggja aðila án þess að þess verði vart“ í símtölum sem eiga sér stað á internetinu. Í umsókninni var sérstaklega vísað til samskipta á Skype eða sambærilegum síðum. Þetta vakti sérstaka athygli þar sem umsóknin barst um 17 mánuðum áður en Microsoft keypti Skype.