Íslandspóstur telur það rangt að fyrirtækið hafi brotið gegn sátt sem það gerði við Samkeppniseftirlitið í fyrra en eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag heldur Félag atvinnurekenda því fram. Segir ríkisfyrirtækið það vera rétt að í sáttinni komi fram að reka eigi félagið ePóst ehf. í dótturfélagi, líkt og Félag atvinnurekenda hefur bent á.

En jafnframt komi einnig fram í sáttinni að ef svo miklar breytingar eiga sér stað á starfsemi dótturfélags að hún hafi ekki lengur samkeppnislega þýðingu, líkt og raunin hefur orðið með ePóst, geti Íslandspóstur óskað eftir áliti eftirlitsnefndarinnar á því að færa rekstur þess í staðinn inn í móðurfélagið.

Er það álit Íslandspósts að með þeirri ráðstöfun, sem nú er fyrirhuguð, að sameina félögin sé markmiðum sáttarinnar náð.
Stjórn Íslandspósts tók málefni ePósts ehf. fyrir á fundi sínum í lok júní sl. og samþykkti að hefja undirbúning erindis þessa efnis til eftirlitsnefndar um framkvæmd sáttarinnar.

Segir í tilkynningu fyrirtækisins að um sé að ræða töluvert umfangsmikið verkefni og því eðlilegt að það taki nokkurn tíma í vinnslu, en nefndinni hefur verið haldið upplýstri um gang mála. Formlegt og fullbúið erindi hafi svo borist nefndinni í október.

Íslandspóstur segir að lokum að fyrirtækið taki mjög alvarlega þá skyldu sína að uppfylla sáttina sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið og hafi lagt sig fram um að fylgja í einu og öllu þeim fyrirmælum sem þar koma fram.

FA segir samþykkið verða að liggja fyrir áður

Athygli vekur í samhengi við yfirlýsingu Íslandspósts að Félag atvinnurekenda bendir á að ekki hafi verið reiknaðir vextir af lánum til dótturfélagsins fyrir árið 2017 þvert á sáttina, sem var ástæða kvörtunar FA.

Það hafi þá samkvæmt skýringum forstjóra fyrirtækisins verið því ákveðið hafi verið strax á því ári að sameina dótturfyrirtækið móðurfélaginu, sem stangast á við að það hafi verið ákveðið í sumar, fjórum mánuðum áður en erindi um sameininguna hafi verið send til eftirlitsnefndarinnar sem á að framfylgja sáttinni.

Meðal þess sem fram kemur í sáttinni, eins og FA bendir á , er kafli um mögulegar sameiningar dótturfélags við móðurfélags Íslandspósts:

„Eigi sér stað slíkar breytingar á starfsemi, umsvifum eða stöðu dótturfélags að starfsemi þess kunni ekki lengur að hafa samkeppnislega þýðingu getur Íslandspóstur óskað eftir áliti eftirlitsnefndar, sbr. 11. gr., á því að færa reksturinn inn í móðurfélagið samhliða því sem dótturfélagið verði lagt niður. Samþykki Samkeppniseftirlitsins verður að liggja fyrir áður en slík breyting getur átt sér stað. Er Samkeppniseftirlitinu heimilt að afla umsagnar eftirlitsnefndar áður en ákvörðun er tekin.“

Hér má lesa fleiri fréttir um málefni Íslandspósts:

Hér má lesa pistla um málefni Íslandspósts:

7. október 2016 - Íslandspóstur býr tortryggnina til sjálfur