„Menn vilja ekki gefa upp allar upplýsingar um fyrirtæki sem stendur í samkeppni,“ segir Ingvar Garðarsson, stjórnarformaður Gagnaveitu Reykjavíkur (GR), í samtali við Viðskiptablaðið. Bent hefur verið á þau sjónarmið löglærðra manna í Viðskiptablaðinu að GR ætti að birta samþykktir og árshlutareikninga á vefsíðu fyrirtækisins og að ríkari kröfur um upplýsingagjöf megi gera til fyrirtækisins sökum eignarhalds þess.

„Allir sem vilja geta nálgast þessar upplýsingar og þegar skattskráin kemur út er hægt að sjá þetta. Stjórnendur GR geta hins vegar ekki tekið einhliða ákvörðun um að birta þessar upplýsingar, bæði af rekstrarlegum ástæðum og vegna hagsmuna eigenda fyrirtækisins. Það er ekki í þágu Reykvíkinga, eigenda fyrirtækisins, að allir sem vilja geti skoðað bækur fyrirtækisins í gegn.“

Spurður hvort hann telji GR fara eftir úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) frá því í nóvember 2006, segir Ingvar það munu koma í ljós þegar hefðbundinni úttekt stofnunarinnar er lokið. „GR hefur óumflýjanlega tengsl við móðurfélag sitt, Orkuveitu Reykjavíkur, og nýtur stuðnings þess, til dæmis þegar kemur að fjármögnun. Hins vegar er það skilningur stjórnenda GR að fyrirtækið hafi farið að úrskurði PFS,“ segir hann.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .