Samkvæmt ríkisfréttastofu Norður-Kóreu er vetnissprengja ríkishersins þess megnug að stroka Bandaríkin í heild sinni af kortinu - í einu höggi, hvorki meira né minna.

Jafnframt segir frá því að tilraunasprengingar hersins sem framkvæmdar voru nýlega hafi hvorki verið ógnun né ögrun, og að tilgangurinn hafi ekki verið að espa aðrar þjóðir upp .

Þá hafi tilgangurinn fremur verið sá að vopnbúa Norður-Kóreu, svo þjóðinni sé unnt að verjast sífellt árásargjarnari ágangi Bandaríkjamanna.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um deila menn um hvort Norður-Kórea hafi yfir höfuð bolmagn til þess að hanna og byggja vetnissprengju í raun og veru.

Sumir sérfræðingar segja að tilraunasprengingin sem framkvæmd var nýlega hafi í raun og reynd verið kjarnorkusprengja, en hún var að sögn ekki nægilega stór til að geta mögulega hafa verið vetnissprengja.