Aðalmeðferð hófst í morgun í máli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og Sigríði Elínu Sigfúsdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans. Eru þau bæði ákærð fyrir umboðssvik með því að hafa stefnt fé bankans í hættu, en málið snýst m.a. um veitta sjálfskuldarábyrgð Landsbankans á lánasamningum tveggja aflandsfélaga.

Sigurjón og Sigríður eru talin hafa afgreitt lánin á milli funda lánanefndar og án utanaðkomandi trygginga. Sigurjón sagði hins vegar óheyrilegan fjölda millilánanefnda hafa verið til staðar, og hundruðir lánamála hafi verið afgreidd sem millifundasamþykktir. Það hafi verið um 50% mála árið 2006 og svipað árið 2007.

Ákæruvaldið telur að veiting ábyrgðanna hafi brotið gegn lánareglum bankans og segir í ákærunni að engar undirliggjandi eignir hafi verið að baki lánunum. Sigríður Elín benti hins vegar á við málsmeðferðina í morgun að lánin hefðu verið tryggð með hlutabréfum í Landsbankanum.

Sigurjón sagði jafnframt að þau hefðu verið að draga úr áhættu bankans og að ákæruvaldið misskildi málið. Gagnrýndi hann jafnframt rannsókn málsins harðlega og sagði henni verulega ábótavant. Sérstakur saksóknari hefði þannig virt nauðsynleg málsgögn að vettugi.