Rússneska fjármálaráðuneytið segir að erlendir bankar hafi neitað að afgreiða 649,2 milljóna dala vaxtagreiðslu af skuldabréfum gefnum út í Bandaríkjadölum. Þess í stað hafi rússneski ríkissjóðurinn neyðst til að inna af hendi vaxtagreiðsluna í rúblum, að því er kemur fram í tilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér í dag. Ráðuneytið lítur svo á að það hafi „uppfyllt skuldbindingar sínar að fullu“. Reuters greinir frá.

Rússnesk stjórnvöld segjast hafa sent vaxtagreiðslur í dölum fyrir tvo skuldabréfaflokka með lokagjalddaga í ár annarsvegar og í apríl 2042 hinsvegar, en þeim hafi verið hafnað. Fyrir vikið hafi rússnsk stjórnöld þurft að styðjast við eigin fjármálastofnanir. Erlendu bankarnir eru ekki nafngreindir.

Ráðuneytið segir að rússnesk stjórnvöld muni íhuga að skipta þeim rúblum sem skuldabréfaeigendur fengu greiddar út fyrir aðra gjaldmiðla, fái þau aðgang að gjaldeyrisreikningum sínum á ný.

Geta Rússlands til að standa í skilum með erlendar skuldir ríkissjóðs hefur verið í kastljósinu eftir að vestræn ríki lögðu á viðskiptaþvinganir í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.