Novator eignarhaldsfélag ehf. hefur ákveðið að framlengja yfirtökutilboð sitt í hlutafé Actavis Group hf. Gildir yfirtökutilboðið nú til kl. 16:00 miðvikudaginn 18. júlí 2007 að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í tilkynningunni kemur fram að í ljósi þess hversu vel hluthafar í Actavis Group hf. hafa tekið yfirtökutilboði Novators í Actavis og þess hversu nálægt Novator er markmiði sínu um 90% samþykki hluthafa, er yfirtökutilboðið framlengt til þess að gefa hluthöfum lengri frest til þess að ganga frá sölu nú yfir sumarleyfistímann.

Framlenging á gildistíma yfirtökutilboðsins hefur engin áhrif á þá sem þegar hafa samþykkt tilboðið og þurfa því þeir hluthafar sem þegar hafa skilað inn samþykki sínu ekki að aðhafast neitt.

Framlenging á gildistímanum felur ekki í sér breytingar á yfirtökutilboði Novators eignarhaldsfélags ehf. í Actavis Group hf. Uppgjör samkvæmt tilboðinu framlengist samhliða til 23. júlí 2007.