Einn stærsti eigandi aflandskróna segir að með því að hafna tilboði Seðlabankans um að selja þeim evrur fyrir krónur á genginu 137.5 krónur fyrir hverja evru, séu þeir að veðja á að fá hagstæðara gengi þegar höftum verður að fullu aflétt.

Þetta kemur fram í máli Peter Sheehan, greinanda hjá Loomis Sayles & Co, í viðtali við Bloomberg fréttastofuna.

Eiga um 360 milljón dali hérlendis

Sjóðurinn er talinn er eiga andvirði um 360 milljóna Bandaríkjadala hérlendis sem lokuðust inn í landinu þegar gjaldeyrishöftin voru sett á, eða sem nemur um 40 milljörðum íslenskra króna.

Sjóðurinn hafnaði tilboði um að greiða 137,5 krónur fyrir hverja evru því hann væntir þess að fá betra verð þegar höftunum verði að fullu létt af, en hann er einn þeirra fjögurra sjóða sem halda hvað mestu af þeim 1,7 milljörðum dala, eða andvirði um 190 milljörðum aflandskróna sem enn voru í landinu fyrir afnám haftanna.

Ekki er ljóst hver af hinum sjóðunum þremur, Eaton Vance Corp. Autonomy Capital LP eða Discovery Capital LLC samþykkti að selja um 90 milljarða króna af aflandskrónunum sem tilkynnt var um á sama tíma og tilkynnt var um afnámið.

Tilboðið rennur út 28. mars

Tilboð ríkisins um verðið 137,5 krónur fyrir evruna rennur út 28. mars.

„Þeir eru að bjóða okkur skerðingu en við erum tilbúin að horfa á þetta til lengri tíma og bíða þangaði til innanlands og utanlandsgildin jafnast út og þeir lyfta gjaldeyrishöftunum að fullu til samræmis við lánshæfismat þeirra,“ segir Sheehan.

„Við erum tilbúin til að taka áhættuna á gjaldmiðlinum þangað til.“ Peter Sheehan segir nýleg kaup Goldman Sach í íslenskri fjármálastofnun vera góð fyrstu merki um fjárfestingar í landinu í kjölfar haftalosunarinnar.

„Lánshæfismatið sem landið nýtur núna endurspeglar land sem ekki býr við gjaldeyrishöft á erlenda fjárfesta,“ sagði Sheehan. „Við höfum verið þolinmóðir hingað til og verðum þolinmóðir áfram.“