Fellihýsi, hjólhýsi og húsbílar eru nánast uppseld hjá Seglagerðinni Ægi. Þrjú fellihýsi, fimm hjólhýsi og einn húsbíll eru enn til, en um 150 einingar af nýjum fellihýsum, hjólhýsum og húsbílum hafa selst í ár. Þetta er svipuð sala og í fyrra, segir Björgvin Barðdal, framkvæmdastjóri í samtali við Viðskiptablaðið, en hann bætir því við að þá hafi salan reyndar verið léleg.

Salan á notuðum tækjum hefur verið svipuð og á nýjum og Björgvin segir að notuðu vörurnar rjúki út. Hann segir að nánast engar nýjar vörur hafi verið fluttar inn í ár og þess vegna hafi það verið lager frá því í fyrra sem hafi verið að klárast. Hann segir að nýjar vörur séu yfirleitt pantaðar á haustin, en hann reikni ekki með að mikið verði pantað í haust fyrir næsta ár og jafnvel ekki neitt.

Spurður að því hvað Seglagerðin Ægir geri þegar öll fellihýsin, hjólhýsin og húsbílarnir verði seld, segir Björgvin að fyrirtækið sé með öflugt verkstæði og verði auk þess með umboðssölu á notuðum tækjum eins og verið hafi. Kjarnastarfsemin hafi hins vegar alltaf verið saumastofan og svo verði áfram. Færri verði í söludeildinni, en þar hafi fólki þegar fækkað.