Við ætlum að fara með vöruna á markað í næsta mánuði,“ segir dr. Hákon Örn Birgisson, annar stofnenda hins þýska LenioBio. „Við erum nýsköpunarfyrirtæki og því þurfa menn að vera með marga hatta og sinna mörgum ólíkum hlutum á meðan við erum að stækka,“ en Hákon Örn var áður yfirmaður markaðsþróunar hjá ORF Líftækni hf.  Tæknin er í stórum dráttum efnablanda sem býr til prótínið, án þess að lifandi frumur þurfa að koma við sögu. LenioBio framleiðir þessa efnablöndu eftir uppskrift frá DowDuPont og mun selja inn á tilraunastofur um allan heim.

„Að taka bút af geni og líma inn í genaferju, troða því inn í lifandi bakteríur eða aðrar frumur og fá  þær þannig til að framleiða það prótín sem þú vilt er tímafrekt og mikið vesen. Með okkar tækni geturðu tekið genið sem þú vilt, sett það út í tilraunaglas með efnablöndunni sem þú kaupir af LenioBio og fengið út prótínið sem þú vilt miklu hraðar og einfaldar. Þú þarft ekki að fara í gegnum allan ferilinn,“ segir Hákon Örn. Þetta getur flýtt fyrir þróun líftæknilyfja og dregið verulega úr kostnaði við rannsóknir og þróun. „Í staðinn fyrir að lifandi frumur framleiða prótínið þá framleiðir efnablandan prótínið.“

Allt að þrjátíufalt betri tækni

LenioBio er fyrsta frumkvöðlafyrirtækið sem DowDuPont treystir fyrir tækni frá sér.„Efnablöndur af þessu tagi hafa í sjálfu sér  verið til í töluverðan tíma.“ Hann segir að Dow, sem rann saman við DuPont á síðasta ári, hafi verið að nota þessa efnablöndu sína innanhúss eingöngu. Hún er tíu til þrjátíu sinnum skilvirkari en aðrar efnablöndur.

„Vandamálið við efnablöndurnar sem fyrir eru, er að þú vissulega setur erfðaefnið einfaldlega út í og færð út prótín, en eingöngu mjög lítið magn og því verður það prótín sem þú færð mjög dýrt. Efnablandan frá Dow hefur hins vegar gefið af sér mikið af ólíkum prótínum í gegnum árin og þar með gefið Dow samkeppnisforskot í að framleiða betri fræ til landbúnaðar,“ segir Hákon Örn. „Dow var eingöngu að nota þessa tækni innanhúss til að þróa ný og betri fræ. Við bönkuðum upp á hjá þeim og vildum nýta þetta í líftæknilyfjageiranum, því þessi tækni mun flýta fyrir vísindamönnum í lyfjaþróun sem eru með kannski 10.000 búta af genum og vilja athuga hvert þeirra virkar sem nýtt lyf. Þá vilja þeir geta hent genunum beint út í hundrað tilraunabakka með hundrað holum með efnablöndunum í og fá 10.000 niðurstöður. Þá geta þeir séð hvaða prótín eru líkleg til að verða að nýjum lyfjum.“

Breytir tækni í viðskipti

Hákon Örn segir að seigla og þrautseigja hafi umfram allt gert það að verkum að Dow  ákvað að veita LenioBio sérleyfi til að framleiða og markaðssetja efnablönduna. „Við erum tveir stofnendur en hann er ekki með reynslu eða menntun í lífvísindum líkt og ég.“ Hinn stofnandinn er Dr. Remberto Martis. Áður var hann yfirmaður samruna og yfirtaka hjá Mitsubishi Chemical Holding í Evrópu, yfirmaður viðskiptahliðar R-DVD hjá Philips þegar Philips fann upp DVD-tæknina í núverandi mynd. Þar áður var hann vörumerkjastjóri hjá Pampers í Ameríku hjá Proctor & Gamble.

„Hann var með mjög sterkan prófíl og hefur mikla reynslu í að taka spennandi tækni og búa til viðskipti og rekstur úr henni. Fyrir Dow var kostur fyrir þá að gefa honum sérleyfi á tækninni, því það er ekki þeirra hilla að framleiða og markaðssetja inn á lífvísindamarkað. Þeir eru algjörlega í öðrum hlutum. En ef tæknin þeirra getur orðið að einhverju stóru í höndunum á LenioBio, þá fá þeir sínar prósentur vegna leyfissamningsins   án þess að þurfa að gera neitt. Þeir eru því að reikna með að þetta geti orðið mjög hagstætt fyrir þá. Margir ólíkir aðilar höfðu falast eftir að fá leyfi á tækninni, en Rembranto var bara þrautseigastur í að þrábiðja þá og sannfæra þá um að við gætum gert þetta vel.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .