*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 13. ágúst 2018 18:02

Sein viðbrögð Nasdaq gagnrýnd

Bandaríska kauphöllin Nasdaq var gagnrýnd fyrir að stöðva ekki viðskipti með hlutabréf í Tesla strax eftir tíst frá Elon Musk.

Ritstjórn
Elon Musk, stofnandi og framkvæmdastjóri Tesla, sendi frá sér heldur afdrifaríkt en smáatriðasnautt tíst fyrir tæpri viku.
vb.is

Laust eftir hádegi síðastliðinn þriðjudag tísti Elon Musk, framkvæmdastjóri rafbílaframleiðandans Tesla, að hann væri að íhuga að afskrá félagið, og hefði í því skyni tryggt fjármögnun fyrir uppkaupum bréfanna á 420 dollara á hlut, sem myndi verðleggja fyrirtækið á um 70 milljarða dollara.

Í kjölfarið urðu töluverð viðskipti með bréfin og sveiflur á verði þeirra, enda skilaboðin frá Musk ekki mjög skýr eða nákvæm. Nasdaq, næst stærsta kauphöll heims, og sú sem félagið er skráð á, stöðvaði svo loks viðskipti með bréfin klukkan 8 mínútur yfir 2, 80 mínútum eftir tístið afdrifaríka.

„Allir sem ég ræddi við furðuðu sig á því að Nasdaq hafi ekki stöðvað [viðskipti með bréf í] Tesla fyrr,“ sagði verðbréfamiðlari hjá Baird í samtali við Wall Street Journal. Klukkan korter í 4 að staðartíma var opnað aftur fyrir viðskipti, og við það ruku bréfin upp um 11% í 380 dollara.

Musk upplýsti svo loks nú fyrir stuttu að opinber fjárfestingasjóður Sádí Arabíu hefði ítrekað falast eftir því að fá að fjármagna afskráningu Tesla af markaði. Heimildarmaður Wall Street Journal sagði hinsvegar að þrátt fyrir að viðræður hefðu vissulega átt sér stað, hefði engin formleg ákvörðun verið tekin, meðal annars vegna óvissu um réttindi sjóðsins sem erlends fjárfestis.

Getur varðað afskráningu
Í reglum kauphallarinnar segir að félög skráð þar skuli tilkynna kauphöllinni með að minnsta kosti 10 mínútna fyrirvara um „tilteknar efnislegar fréttatilkynningar“, hyggist þau birta þær milli klukkan 7 að morgni og 8 að kvöldi. Í framhaldinu leggur kauphöllin, í samvinnu við félagið, mat á hvort stöðva skuli viðskipti með bréf félagsins, sem sérfræðingar segja jafna út stöðu fjárfesta.

Hvorki talsmenn Tesla né kauphallarinnar hafa viljað svara því hvort félagið hafi tilkynnt kauphöllinni um tístið yfirvofandi, en seinagangur viðbragðanna virðist benda til að svo hafi ekki verið. Sé það tilfellið er um brot á reglum kauphallarinnar að ræða, sem getur haft í för með sér opinbera viðvörun eða jafnvel afskráningu félagsins.

David Rocker, fyrrverandi vogunarsjóðstjóri, sagði viðbrögð kauphallarinnar og fjármálaeftirlitsins óviðunandi. „Viðskipti með bréfin hefðu átt að vera stöðvuð þegar í stað, og ekki leyfð á ný fyrr en Musk annaðhvort sýndi fram á skriflega staðfestingu fjármögnunar, eða tilvistarleysi hennar.“

Stikkorð: Nasdaq Tesla Elon Musk