Valtýr Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, segir seinustu forvöð fyrir innanríkisráðherra að víkja tímabundið á meðan rannsókn á lekamálinu stendur enn yfir. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Hanna Birna hefur svarað því játandi að hún hafi rætt rannsókn á lekamálinu við Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóra, en segir það hafa verið til að greiða fyrir rannsókn málsins og afla upplýsinga um öryggi gagna sem höfðu fengist úr innanríkisráðuneyti.

„Í þessu máli sérstaklega þar sem ráðherra ákvað að víkja ekki sæti við rannsóknina, þá er það afar óheppilegt að ráðherra sé að hafa svona samband og ræða rannsókn þar sem rannsóknin í þessu tilviki beinist að ráðherranum og ráðuneytinu sjálfu,“ er haft eftir Valtý á fréttavef RÚV.

Hanna Birna hefur gagnrýnt hversu langan tíma rannsóknin hefur tekið, en sá seinagangur hefur komið í veg fyrir að hún geti haldið uppi vörnum á opinberum vettvangi, þar sem hún hefur legið undir ámæli.