Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, flutti fyrirlestur fyrir viðskiptavini og starfsmenn Baugs í Tívolíinu í Kaupmannahöfn árið 2006. Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Baugs, segir í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark að opnun tívolísins hafi verið seinkað um klukkutíma þann dag fyrir Baug.

Lars Liebst, þáverandi forstjóri tívolísins, sat í stjórn Magasin Du Nord á þessum tíma en Baugur var stærsti hluthafi dönsku stórverslunarkeðjunnar.

„Hann gerði okkar þann greiða einn daginn að opna tívolíið klukkutíma seinna vegna þess að Clinton var gestur hjá okkur,“ segir Jón Ásgeir. „[Clinton] fór í einn rússíbana held ég. Hann hafði mjög gaman að þessu.“

„Þetta var á þessum tíma þar sem sú pælingin var að koma fram að Hillary yrði kannski næsta forsetaefni. [Bill] er ákaflega ræðinn og skemmtilegur. Við fórum yfir það að hann yrði fyrsti maðurinn sem til að vera „First Lady“.“

Árið 2007 lagði Baugur 130 milljónir króna í verkefni Tom Hunter, viðskiptafélaga Baugs, og Bill Clinton í Rúanda . Verkefnið fólst í kolefnisbindingu með ræktun örfoka lands.