Pólska farsímafyrirtækið P4 hefur tilkynnt að þriggja mánaða seinkun verði á að þriðju kynslóðar farsímaþjónusta fyrirtækisins verði sett af stað, segir í pólskum fjölmiðlum.

Tafirnar verða vegna þess að seint gengur að tryggja leyfi fyrir byggingu mannvirkja fyrir símakerfið, en búist er við að því verði lokið á fyrsta ársfjórðungi 2007.

Forseti P4, Chris Bannister, segir að fyrirtækið hafi aðeins tryggt sér leyfi fyrir byggingu á 36 af þeim 500 stöðvum sem þarf til að setja kerfið af stað.

P4 hefur í hyggju að vinna í samstarfi með samkeppnisaðilanum Polkomtel SA við úrlausn málsins, segir í fréttinni.

P4 er í eigu fjarskiptafyrirtækisins Netia Holdings og íslenska fjárfestingarfélagsins Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar.