Önnur bylgja COVID-19 faraldursins á heimsvísu hefur mun minni áhrif á starfsemi Ikea en sú fyrsta. Að sögn sænsku húsgagnaverslunarkeðjunnar mun önnur bylgjan ekki hafa nærri jafn mikil áhrif á framleiðslu fyrirtækisins og sú fyrsta hafði í för með sér. FT greinir frá.

Salan muni þó vissulega hægja á sér líkt og í upphafi faraldursins en framleiðsla muni nú haldast nær óskert. Fyrirtækið hefur neyðst til að loka verslunum víða um heim og að sögn fjármálastjórans Martin Van Dam hafði sala Ikea venju samkvæmt verið mikil í september og október, þar sem skólahald fer af stað á nýjan leik, eða allt þar til seinni bylgja faraldursins leiddi til lokana.

„Það er ekki hægt að bera áhrif seinni bylgjunnar saman við áhrif fyrri bylgjunnar. Stærsti munurinn er sá að við höfum ekki þurft að hætta framleiðslu,“ sagði Van Dam í samtali við blaðamann FT.