*

þriðjudagur, 26. janúar 2021
Innlent 4. desember 2020 16:16

Sekt Arctica stendur óhögguð

Landsréttur staðfesti dóm í máli Arctica Finance gegn ríkinu og stendur 24 milljón króna sekt félagsins því.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Arctica Finance gegn íslenska ríkinu og Fjármálaeftirlitinu. Niðurstaðan þýðir að 24 milljón króna sek félagsins vegna fyrirkomulags kaupaukakerfis þess stendur.

Í september 2017 lagði FME stjórnvaldssekt á Arctica Finance vegna brota gegn ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki og reglna sem settar voru á grundvelli þeirra laga. Að mati FME fólust brot Arctica í því að hafa greitt tilteknum starfsmönnum, sem áttu svokölluð B-, C- og D-hlutabréf í félaginu, kaupauka í formi arðs árin 2012-17. B-flokkur var fyrir starfsmenn á fyrirtækjasviði og starfsmenn eignastýringar og markaðsviðskipta áttu bréf í flokki C og D. Alls námu arðgreiðslur á tímabilinu um 715 milljónum króna.

Upphaflegar reglur um kaupauka voru settar á árinu 2011 en nýjar reglur samþykktar árið 2016. Stjórn Arctica sendi FME hvert ár tilkynningu að ekki stæði til að greiða út kaupauka en félagið greiddi aftur á móti út arð. Taldi FME að þar hefðu kaupaukagreiðslur verið klæddar í búning arðgreiðslna. Umræddir hluthafar hefðu lagt 200 þúsund krónur í hlutafé en fengið í staðinn 715 milljónir í arð. Áhættan hefði því verið engin en hagnaðarvonin gífurleg.

„Arðgreiðslur til hluthafa B, C og D flokks á ofangreindum árum fólust í greiðslum í reiðufé. Endanlega fjárhæð var ekki unnt að sjá fyrirfram með nákvæmum hætti, enda var fjárhæðin ákvörðuð eftir reiknireglu sem tók tillit til rekstrarárangurs þeirrar deildar, sem viðkomandi flokkur var tengdur við og hluthafar störfuðu í. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki heldur ráðið að greiðslurnar hafi verið þáttur í föstum starfskjörum starfsmanna félagsins. […] Fjármálaeftirlitið telur að af ofangreindu leiði að í arðgreiðslum til hluthafa B, C og D flokks á árabilinu 2012-2016 hafi falist kaupauki,“ sagði í ákvörðun FME og ákvað stjórnvaldið að leggja 72 milljón króna sekt á félagið vegna þessa.

Í dómi héraðsdóms var sektin lækkuð þar sem rétturinn taldi refsiheimild laganna frá 2011 of almennt orðaða til að geta talist gild refsiheimild til að byrja með. Lögum um fjármálafyrirtæki var breytt árið 2015 og var það mat dómsins að frá og með gildistöku þeirra breytingalaga hafi reglugerðin haft viðhlítandi lagastoð og að lagaákvæðið væri nægilega skýrt orðað til að unnt væri að refsa fyrir brot gagnvart því. Þá var það mat dómsins að í arðgreiðslunum hefðu falist kaupaukar. Var sektin með hliðsjón af þessu lækkuð niður í 24 milljónir króna.

Dómur Landsréttar í málinu var stuttur og laggóður. Fyrri hluta dómsins var ekki áfrýjað og stóð því aðeins eftir að kanna hvort síðari hluti hans stæðist. Með vísan til forsendna héraðsdóms var hann staðfestur. Málskostnaður var látinn niður falla milli aðila. Eva B. Helgadóttir, lögmaður Arctica Finance, segir við blaðið að til skoðunar sé að óska eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.