Byggingavöruverslunin Byko mun þurfa að greiða 65 milljónir króna í sekt vegna brota á samkeppnislögum í stað 650 milljóna eins og Samkeppnisyfirlitið fór upphaflega fram á.

Samkeppniseftirlitið komst þann 15. maí síðastliðinn að þeirri niðurstöðu að Byko hefði brotið gegn samkeppnislögum og EES-samningnum með ólögmætu samráði við gömlu Húsasmiðjuna á því tímabili sem rannsóknin tók til. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem kvað upp úrskurði sinn í dag.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar er staðfest sú niðurstaða að Byko hafi brotið gegn samkeppnislögum með samráði við gömlu Húsasmiðjuna. Segir þannig í úrskurðinum að „Byko hafi brotið gegn ákvæðum 10. gr. samkeppnislaga. Er því í meginatriðum lýst að skipulögð og kerfisbundin upplýsingaskipti um verð hafi leitt til ástands sem þróaðist í þá átt að gera báðum kleift að hækka verð sín. Hin tíðu samskipti leiddu einnig til þess að leitað var eftir hreinræktuðu verðsamráði eins og rakið er hér að framan …“

Hins vegar taldi áfrýjunarnefnd að brot Byko hafi ekki verið jafn alvarleg og Samkeppniseftirlitið hélt fram og því taldi hún hæfilegt að lækka sektina um áðurnefndar 585 milljónir króna.