*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 12. janúar 2018 16:22

Sekt á Norðursiglingu staðfest

Áfrýjunarnefnd staðfestir hálfrar milljónar króna stjórnvaldssekt Neytendastofu því fyrirtækið sagðist kolefnishlutlaust.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu en í febrúar síðastliðnum lagði stofnunin 500.000 króna stjórnvaldssekt á Norðursiglingu ehf. fyrir brot gegn fyrri ákvörðun stofnunarinnar.

Neytendastofa taldi að Norðursigling hefði ekki gert fullnægjandi ráðstafanir til þess að farið yrði að fyrri ákvörðun stofnunarinnar þar sem fyrirtækinu var bannað að nota myndmerkið og textann „Carbon Neutral“ í markaðssetningu. Því lagði Neytendastofa stjórnvaldssekt á fyrirtækið.

Þótti slík markaðssetning villandi gagnvart neytendum og ósanngjörn gagnvart keppinautum. Á vef neytendastofu er rakið hvernig stofnunin hafði ítrekað samband við fyrirtækið næstu mánuði vegna upplýsinga um að enn væri hugtakið notað í markaðssetningu.

Ákvað Norðursigling síðan í lok ágúst að kæra ákvörðun Neytendastofu og segir Norðursigling að með ákvörðuninni hafi stofnunin brotið meðalhóf, jafnræði og andmælarétt fyrirtækisins. Setti fyrirtækið fram þær athugasemdir að ekki hefði verið veittur lokafrestur til úrbóta, ekki verið samræmi í afstöðu stofnunarinnar og að unnið hefði verið að úrbótum í góðri trú. 

Segir fyrirtækið jafnframt að stofnunin hefði átt að beita dagsektum í stað stjórnvaldssektar sem og að fjárhæð sektarinnar sé úr hófi. Áfrýjunarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið þeir annmarkar á meðferð stofnunarinnar að ákvörðun hennar eigi að fella úr gildi.