Hagnaður Símans á öðrum ársfjórðungi nam 83 milljónum króna en 798 milljónum á sama tímabili fyrra árs. Hagnaður félagsins á fyrri hluta árs hefur dregist saman um 40% og nam 847 milljónum. Stöðugildum hefur fækkað um 50 frá áramótum. Frá þessu er greint í nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins.

Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) á fyrri hluta ársins dróst saman 6,1% og nam 4.673 milljónum króna. Sé leiðrétt fyrir óreglulegum liðum óx EBITDA á fyrri hluta árs samanborið við árið 2019 og er sambærileg milli fjórðunga. Arðsemi eigin fjár nam 7,4% á fyrri hluta ársins en 8,8% á árinu 2019. Tekjur félagsins jukust milli ára, bæði á fjórðungnum og á fyrri hluta ársins.

Meðal þeirra þátta sem hafði áhrif á afkomuna á öðrum ársfjórðungi má nefna 500 milljóna króna stjórnvaldssekt vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins (SKE) í tengslum við enska boltann. Félagið hefur kært ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Að auki var kostnaður vegna uppsagna 125 milljónir á fjórðungnum, tekið er fram að áhrif faraldursins séu lítil.

Landsmenn duglegir að horfa á sjónvarpið

Heildartekjur félagsins á öðrum ársfjórðungi jukust um 2,3% frá sama fjórðungi 2019 en þær námu ríflega 7.200 milljónum króna. Tekjur vegna upplýsingatækni jukust um tæp 25% og sala á sjónvarpsþjónustu jókst um ríflega 15%, auglýsingatekjur jukust einnig. Vörusala jókst um tæplega 13% og 40% vöxtur var á gagnanotkun á milli ára.

Rekstrarhagnaður félagsins nam 415 milljónum á öðrum ársfjórðungi en 1.278 milljónum á sama tíma fyrir ári. Á fyrri hluta ársins dróst rekstrarhagnaður saman um 31% og nam 1.645 milljónum.

Kostnaðarverð seldra vara og rekstrarkostnaður jókst talsvert sem skýrir að einhverju leiti breytta afkomu milli ára. Aukning á skrifstofu- og stjórnunarkostnaði skýrir að mestu aukningu á rekstrarkostnaði.

Lausafjárstaðan styrkst

Fram kemur að eiginfjárhlutfall félagsins stendur í 56,5% samanborið við 55,9% í upphafi árs. Sömuleiðis hefur handbært fé aukist og nemur nú 976 milljónum en stóð í 217 milljónum í upphafi árs.

Handbært fé frá rekstri nam ríflega 6.800 milljónum í lok annars ársfjórðungs samanborið við 4.149 milljónir á sama tímabili fyrir ári.

Eigið fé félagsins hefur lítið breyst á árinu og nemur 36,5 milljörðum króna. Heildareignir félagsins nema 65 milljörðum og skuldir 28 milljörðum. Þar af eru tæplega 15 milljarðar vegna skuldabréfalána. Óefnislegar eignir Símans nema 34 milljörðum króna og rekstrarfjármunir 19 milljörðum.