Samkeppniseftirlit Suður-Kóreu hefur sektað Google um 207 milljarða won, eða sem nemur 22,6 milljörðum króna, fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína í stýrikerfum farsíma. Sektin er ein sú stærsta sem Suður-Kórea hefur lagt á alþjóðlegt tæknifyrirtæki, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

Um er að ræða fyrsta skiptið sem Suður-Kórea hafa sektað Google fyrir brot á samkeppnislögum. Samkeppniseftirlitið sakaði Google um að nota mikla samningsstyrk sinn til að kæfa samkeppni. Stofnunin horfði þar sérstaklega til kröfu stórfyrirtækisins að snjallsímaframleiðendur skrifi undir samkomulag, vilji þeir leyfi fyrir Google Store og aðgang að nýjustu uppfærslum Android stýrikerfisins, sem banni þeim að setja upp breyttan hugbúnað á tækjunum, svokallaða „Android forks“.

Suður-kóreska samkeppniseftirlitið taldi þessa starfshætti tryggja Google markaðsráðandi stöðu á markaði stýrikerfa. Stofnunin sagði að Amazon og Alibaba hefðu ekki náð að stækka hlutdeild sína vegna fyrirkomulagsins.

Þetta er ekki eina höggið fyrir Google í Suður-Kóreu en stjórnvöld þar í landi samþykktu á dögunum lög miðuð gegn þóknunum Google og Apple á smáforritamörkuðum, þrátt fyrir mikinn mótþrýsting frá netrisunum. Lögin gera hugbúnaðarframleiðendum kleift að sniðganga greiðslugátt stóru tæknifyrirtækjanna inn í forritunum sjálfum (e. in-app purchasing systems). Apple og Google rukka í dag allt að 30% þóknun á viðskiptum innan smáforrita.

Lögin banna smáforritaverslununum einnig að fresta inngöngu nýrra forrita ásamt því að þau koma í veg fyrir einkaréttarsamninga við framleiðendur smáforrita. Brot á lögunum geta leitt til sekta á allt að 3% tekna netrisanna í Suður-Kóreu.