Samkeppniseftirlitið hefur lagt 480 milljóna króna stjórnvaldssekt á Mjólkursamsöluna ehf. (MS) vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá eftirlitinu.

Í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins segir að MS hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verői á sama tíma og MS sjálft og tengdir aðilar fengu þetta hráefni á mun lægra verői, og að auki undir kostnaðarverði.

Að mati Samkeppniseftirlitsins var þetta til þess fallið að veita MS og tengdum aðilum verulegt samkeppnisforskot gagnvart keppinautum. Með þessu móti hafi geta keppinauta til þess að keppa við MS og tengd félög verið skert með alvarlegum hætti, en það ku þá munu vera til þess fallið að skaða á endanum hagsmuni neytenda.

Þá segir að það liggi einnig fyrir að MS hafi veitt Samkeppniseftirlitinu rangar upplýsingar og hafi látið undir höfuð leggjast að upplýsa eftirlitið um mikilvæg gögn. Þá hafi það tafið úrlausn málsins og skaðað samkeppni.

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er að MS hafi með mjög alvarlegum hætti brotið samkeppnislög. Keppinautar MS hafi þurft bæði að sæta að fá grundvallarhráefni á óeðlilega háu verði og að MS sjálf og tengdir aðilar fengju þetta hráefni á mun lægra verði.

Þá segir einnig að ekki hafi verið nóg með það, að KS og Mjólka II fengju hrámjólkina á mun lægra verði en keppinautur þeirra heldur væri hún auk þess verðlögð af MS undir kostnaði. Væri þetta til þess fallið að veita þeim verulegt samkeppnisforskot gagnvart keppinautum - en það hafi verið tilgangur þessara aðgerða MS. Því sé MS sektað um 480 milljónir króna.