Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sektað bílaframleiðendurna BMW og Volkswagen um rúmlega einn milljarð dollara, um 123 milljarða króna, fyrir samráð um að takmarka notkun á útblásturskerfi sem félögin höfðu þróað. Reuters greina frá.

Málið snýr að samráði á svonefndu AdBlue íblöndunarefni sem félögin nota til að draga úr magni köfnunarefnisoxíðs frá útblásturskerfi dísilbíla. Fyrir um áratug síðan höfðu félögin komist að samkomulagi um stærð tankar efnisins, drægni og eyðslu.

Félögin gerðu sátt við Evrópusambandið og þarf VW að greiða 595 milljónir dollara í sekt vegna sáttarinnar og BMW 442 milljónir. Félögin eru sögð hafa búið yfir tækni til þess að minnka útblástur skaðlegra efna meira en Evrópusambandið gerir kröfur um en hafi kosið að gera það ekki.

Niðurstaðan er sögð fordæmisgefandi þar sem að þetta er í fyrsta sinn sem að Framkvæmdastjórn sambandsins beitir samkeppnislögum ESB á viðræður keppinauta um tæknilegt samráð. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn í sögu ESB sem að uppljóstrað er um samráðshring sem hafði þann tilgang einan að takmarka notkun á nýrri tækni.

VW íhugar nú lagalegan rétt sinn þar sem að félaginu þykir ESB nú komið á hættulegar slóðir með þessu fordæmi. Bílaframleiðandinn er ósáttur við að sameiginlegir tæknistaðlar framleiðanda í ákveðnum málum geti nú flokkast sem samráð.