Neytendastofa hefur sektað íþróttavöruverslanirnar Jóa útherja og Fimleikar.is um 50 þúsund krónur hvor vegna óviðunandi merkinga í verslunum fyrirtækjanna eftir að ekki var farið að fyrirmælum um úrbætur innan tilskilins tíma.

Í verslunum Jóa Útherja, sem staðsettar eru í Ármúla og Bæjarhrauni vantaði verð á bolta, sokka og bolla við síðari skoðun í seinni versluninni, en ekki kemur fram hvað vantaði samkvæmt reglum um að verðmerkingar verði að vera áberandi í verslunum í tilfelli fyrrnefndu verslunarinnar.

Verslanir fyrirtækjanna tveggja, L3 ehf., og Útherji ehf., voru heimsóttar í bæði júlí og ágúst í sumar og verðmerkingar skoðaðar og félögunum send tilmæli í kjölfarið um úrbætur.

Hjá fyrra fyrirtækinu sem rekur verslunina Fimleikar.is á Smáratorgi hafði ekki verið brugðist við tilmælum um úrbætur í seinni heimsókninni, en brugðist hafði verið við í annarri af tveimur verslunum hins fyrirtækisins.

Engin skýring barst frá fyrrnefndu versluninni þegar kostur á því gafst, en sú síðarnefnda sagði sumarleyfi hjá starfsmönnum vera skýringu á því að í annarri verslun félagsins, í Bæjarhrauni, hefðu úrbætur ekki verið gerðar við seinni skoðun.

Einnig gerði stofnunin athugasemd við að upplýsingar um virðisaukaskattnúmer hefði vantað á heimasíðu Jóa Útherja eftir fyrri skoðun, en fullnægjandi breytingar höfðu verið gerðar við síðari skoðun.