Bandaríska fyrirtækið Procter & Gamble (P&G) hefur verið sektað um eina milljón dala, jafngildi um 140 milljóna íslenskra króna, af kínverskum stjórnvöldum vegna auglýsinga á Crest-tannkremi. BBC News greinir frá þessu.

Ástæða sektarinnar er sögð vera að fyrirtækið ýki áhrif tannkremsis á ástand tannanna í sjónvarpsauglýsingunni, en þar fer vinsæll spjallþáttarstjórnandi frá Tævan með aðalhlutverkið. Telja stjórnvöld að átt hafi verið við myndir í auglýsingunni til þess að gera tennurnar hvítari.

P&G var fyrirskipað að taka auglýsinguna úr sýningu á miðju síðasta ári. Fyrirtækið segir hins vegar að allar þeirra vörur hafi gengist undir alls kyns athuganir áður en þær voru markaðssettar í Kína, og þeim breytt í samræmi við þarlend neytendalög.

Samkvæmt kínverskum miðlum er um að ræða hæstu sekt sem lögð hefur verið á fyrirtæki í þessum bransa í sögunni.