*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Erlent 20. október 2021 12:55

Sektað um 9 milljarða í Bretlandi

Breska samkeppniseftirlitið hefur sektað Facebook um 9 milljarða króna fyrir að veita eftirlitinu ekki aðgang að upplýsingum.

Ritstjórn
epa

Facebook hefur verið sektað um 50,5 milljónir punda, eða sem nemur 9 milljörðum króna, af breska samkeppniseftirlitinu CMA fyrir að vísvitandi gefa ekki upp tilskyldar upplýsingar við rannsókn á yfirtöku netrisans á Giphy á síðasta ári fyrir 400 milljónir dala eða um 50 milljarða króna.

CMA sagði í tilkynningu að um væri að ræða „meiriháttar brot“ og þetta væri í fyrsta sinn sem eftirlitið hafi orðið vitni að fyrirtæki vísvitandi neita að gefa upp allar upplýsingar sem það hafi kallað eftir. Facebook hefur hafnað þessum ásökunum, að því er kemur fram í frétt BBC.

Framangreind sekt er meira en 150 sinnum stærri en CMA hafði áður mest gefið út fyrir sambærileg brot. Fyrra met var 325 þúsund pund eða um 58 milljónir króna. Breska samkeppniseftirlitið sektaði Facebook um 500 þúsund pund til viðbótar fyrir að skipta um regluvörð í tvígang án þess að án þess að fá heimild fyrir því fyrst.  

Sjá einnig: Eftirlitið vill að Facebook selji Giphy

Fyrir rúmum tveimur mánuðum gaf CMA út bráðabirgðaniðurstöður á rannsókninni sem gáfu til kynna að samruninn muni skekkja samkeppni á markaði samfélagsmiðla. Breska samkeppniseftirlitið sagði í tilkynningu að ef áhyggjur þess væru á rökum reistar, þá muni það krefjast þess að Facebook vindi ofan af samningnum og selji Giphy.

CMA lýsti yfir áhyggjum af því að yfirtakan gæti leitt til þess að netrisinn gæti komi í veg fyrir að aðrir samfélagsmiðlar noti GIF-hreyfimyndasniðin í safni Giphy. Jafnframt gæti Facebook krafið notendur Giphy á öðrum samfélagsmiðlum líkt og TikTok, Twitter og Snapchat, að veita aukinn aðgang að persónugögnum til að nota GIF myndirnar.

Facebook keypti bandaríska fyrirtækið Giphy í maí á síðasta ári með það í huga að sameina það við samfélagsmiðilinn Instagram. Netrisinn hefur haldið því fram að Instagram muni áfram leyfa öðrum samfélagsmiðlum aðgang að Giphy safninu.

Stikkorð: Facebook Giphy