Dómstóll í Kaupmannahöfn hefur sektað fjóra bílstjóra sem óku undir merkjum Uber fyrir brot á lögum um leigubílaakstur. Bílstjórarnir voru ákærðir í mars síðastliðnum fyrir að hafa ekið leigubílum án þess að hafa til þess tilskilin réttindi og leyfi. Þetta kemur fram í frétt Reuters .

Bílstjórarnir fjórir voru sektaðir um samtals 696.600 danskar krónur sem samsvarar tæplega tólf milljónum íslenskra króna. Samtals óku þeir 7.717 ólöglegar ferðir með viðskiptavini. Sá sem fékk hæstu sektina var dæmdur til að greiða 486.500 danskar krónur sem samsvarar rúmum 8 milljónum íslenskra króna. Hinir bílstjórarnir fengu sektir á bilinu 40.000 til 110.000 danskra króna.

Uber sem hóf starfsemi í Danmörku árið 2014 var harðlega gagnrýnt þar í landi og var fyrirtækið sakað um að hafa ósanngjarnt samkeppnisforskot með því að uppfylla ekki lagalegar kröfur um leyfi til leigubílaaksturs. Í febrúar síðastliðnum tóku í gildi ný lög um leigubílaakstur sem þar sem frekari kröfur voru gerðar til leigubíla. Varð það til þess að Uber lagði niður starfsemi í landinu í apríl síðastliðnum.