Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur staðfest 300 þúsund króna stjórnvaldssekt sem sýslumaður lagði á fasteignareiganda fyrir að starfrækja óskráða heimagistingu. Eigandinn hafði krafist niðurfellingar á sektinni þar sem hann taldi ekki lagaheimild til álagningar hennar.

Atvik málsins má rekja til sumarsins 2018 en þá varð sýslumaður þess var að gisting var auglýst í húsnæðinu. Verð fyrir nótt var 40 þúsund krónur og höfðu tíu umsagnir verið ritaðar um húsnæðið. Ekki hafði verið sótt um leyfi fyrir því að starfrækja gistingu í húsinu. Að vettvangsferð lokinni tilkynnti sýslumaður eiganda eignarinnar að fyrirhugað væri að leggja 300 þúsund króna sekt á vegna þessa.

Eigandinn krafðist þess að slíkt yrði ekki gert þar sem ekki væri um heimagistingu væri að ræða. Umrædd fasteign væri skráð sem atvinnuhúsnæði og gæti því ekki talist heimagisting. Af þeim sökum væru skilyrði til sektarálagningar ekki í boði.

Sýslumaður taldi á móti að skilyrðin væru uppfyllt þótt um atvinnuhúsnæði væri að ræða. Umræddur eigandi hefði undirritað upplýsingaskýrslu á vettvangi og þar hefði komið fram að heimagisting væri starfrækt í húsinu.

Að mati ráðuneytisins þótti upplýst að umrædd starfsemi hefði verið starfrækt í húsinu. Þá þótti ráðuneytinu ekki skipta máli að umrætt húsnæði hefði ekki uppfyllt lagaskilyrði til skráningar sem heimagisting. Því hefði verið heimilt að leggja umrædda sekt á. Með hliðsjón af samstarfsvilja eigandans og umfangi málsins þótti 300 þúsund króna sekt vera hæfileg.