*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 22. maí 2020 17:20

Sektaður fyrir viðskipti í Icelandair

Fyrrverandi varaformaður stjórnar Icelandair hefur gert sátt um greiðslu sektar fyrir brot gegn markaðsmisnotkunarákvæði verðbréfaskiptalaganna.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Ómar Benediktsson, fyrrverandi varaformaður stjórnar Icelandair, hefur gert sátt við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) um greiðslu 850 þúsund króna sektar fyrir brot gegn markaðsmisnotkunarákvæði verðbréfaskiptalaganna. Sagt er frá í tilkynningu á vef Seðlabankans en Markaðurinn greindi fyrst frá henni.

Í ágúst í fyrra var send tilkynning til Kauphallarinnar þess efnis að félag, fjárhagslega tengt Ómari, hefði keypt fyrir 77 milljónir króna í Icelandair. Tilkynningin gaf til kynna að Ómar hefði keypt í félaginu og með því tekið fjárhagslega áhættu.

Viku síðar var hins vegar send önnur tilkynning til Kauphallarinnar. Þar kom fram að félag Ómar hefði verið meðal hluthafa í félaginu Traðarhyrnu en það félag heldur um eignarhluti í Icelandair. Það félag hefði verið mótaðili félags Ómars í téðum viðskiptum og fengið bréf í Icelandair í skiptum fyrir bréf í Traðarhyrnu. Ómar hefði því ekki verið að auka fjárhagslega áhættu sína í Icelandair ólíkt því sem fyrri tilkynningin gaf til kynna.

Að mati FME fól fyrri tilkynningin í sér dreifingu á upplýsingum sem gáfu eða voru líklegar til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga í Icelandair og að Ómar hafi vitað, eða að minnsta kosti mátt vita, að þær voru rangar eða misvísandi. Því hefði verið brotið gegn fyrrgreindum lögum.

Við ákvörðun sektar vegna brotsins leit FME til eðlis þess og að það hafi verið framið af gáleysi. Þá virðist ekki sem Ómar hafi ætlað sér að hafa ávinning af því eða haft af því slíkan ávinning. Þá leiðrétti hann mistökin að eigin frumkvæði. Með hliðsjón af fjárhagsstöðu hans og þeirri staðreynd að málinu lauk með sátt þótti sektin hæfilega ákveðin 850 þúsund krónur.