Það stefnir í að afkoma Eimskips á öðrum ársfjórðungi verði „umtalsvert betri“ en á sama tímabili fyrir ári síðan og jafnframt betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, samkvæmt stjórnendauppgjöri fyrir apríl og maí og áætlun fyrir júní. Þetta fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Eimskip tilkynnti einnig áðan um sátt við Samkeppniseftirlitið vegna ólöglegs samráðs við Samskip á árunum 2008-2013. Sáttin felur í sér 10 milljóna evra sekt, sem jafngildir 1,5 milljörðum króna.

Sjá einnig: Eimskip greiðir 1.500 milljónir í sekt

Áætlað er að aðlöguð EBITDA, án áhrifa sáttarinnar, á öðrum ársfjórðungi verði á bilinu 26-29 milljónir evra, eða 3,8-4,3 milljarðar króna, samanborið við 16 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Aðlagað EBIT fjórðungsins er áætlað á bilinu 14 til 17 milljónir evra samanborið við 5,0 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi síðasta árs. EBIT hagnaður Eimskips hækkar því um sambærilega fjárhæð og framangreind sekt vegna sáttarinnar við Samkeppniseftirlitið.

Að teknu tilliti til sáttarinnar er áætlað að raun EBITDA á öðrum ársfjórðungi verði á bilinu 16-19 milljónir evra og EBIT á bilinu 4-7 milljónir evra.

„Það sem af er öðrum ársfjórðungi hefur reksturinn almennt gengið mjög vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður á þeim mörkuðum sem félagið starfar á. Magn í áætlunarsiglingum hefur verið sterkt, góð nýting í gámasiglingakerfinu og þá hefur verið góður gangur í alþjóðlegri flutningsmiðlun félagsins. Jafnframt eru tekjustýringarverkefni sem ráðist hefur verið í ásamt hagræðingaraðgerðum síðustu missera að bæta afkomuna,“ segir í tilkynningu Eimskips.

Í ljósi afkomu fyrsta ársfjórðungs og væntrar afkomu af öðrum ársfjórðungi er aðlöguð EBITDA afkomuspá, án áhrifa sáttarinnar, fyrir árið 2021 nú á bilinu 77-86 milljónir evra samanborið við 68-77 milljónir evra sem upphaflega var birt í desember 2020.