Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði í pallborðsumræðum á fundi Samkeppniseftirlitsins í morgun, að samræming sekta á milli EES-ríkja myndi þýða að samkeppnissektir hækkuðu á Íslandi. Í samanburði við leiðbeinandi reglur ESA um samkeppnissektir væru samkeppnissektir á Íslandi lágar.

Hann benti á að Samkeppniseftirlitið hefði tekið ákvörðun um 60 sektir. Þar af hefðu sex fyrirtæki verið sektuð oftar en einu sinni og eitt sex sinnum (Síminn). Það benti til þess að fælingarmáttur sektanna væri ekki nægilegur, að því er segir í frétt á vefsíðu Félags atvinnurekenda.

Samkeppniseftirlitið hefur ekki formlegar leiðbeinandi reglur um ákvörðun sekta eins og til dæmis ESA og norska samkeppniseftirlitið. Páll Gunnar sagði að þróunin hjá Samkeppniseftirlitinu yrði þó í átt til meira gegnsæis hvað sektarákvarðanir varðaði.

Hins vegar mætti gegnsæið ekki vera of mikið; menn vildu ekki að fyrirtæki gætu reiknað út fyrirfram hversu hárri sekt þau gætu búist við í samhengi við ávinning af samkeppnisbrotum.