Stjórnvaldssektir olíufélaganna lækka um einn miljarð samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kveðinn var upp fyrir hádegið. Greint var frá þessu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.

Þar kom fram að heildarsektir samkeppnisráðs námu um 2,5 miljarði króna en lækka í 1,5 miljarð króna. Lögfræðingum félaganna var tilkynnt niðurstaðan nefndarinnar í hádeginu segir í frétt RÚV. Samkvæmt úrskurði hennar á Ker hf. sem rekur Esso stöðvarnar að greiða 495 m.kr. en átti samkvæmt ákvörðun Samkeppnisráðs að greiða 605 m.kr., Olís á að greiða 560, átti að greiða 880 m.kr., Skeljungur sem átti að greiða 1,1 miljarð króna í stjórnvaldssektir á að greiða 450 m.kr. þannig að sektir félagsins lækka um rúman helming. Orkan var sektuð um 40 m.kr., en samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndar eru stjórnvaldssektir felldar niður.

Þó að sektir félaganna lækki umtalsvert segja heimildir Fréttastofu Útvarps að meginniðurstöður samkeppnisráðs um samráð olíufélaganna hafi verið staðfestar. Olíufélögin áfrýjuðu niðurstöðu Samkeppnisráðs til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og meginkrafa þeirra var á ákvörðun Samkeppnisráðs yrði felld úr gildi. Félögin geta skotið málinu til dómstóla en engin ákvörðun hefur verið tekin um það segir í frétt RÚV.