Fjárhæð sekta vegna mála hjá skattrannsóknarstjóra sem dæmt var í, úrskurðað eða samþykkt á árinu 2018 nema samtals 2,4 milljörðum króna að því er segir á vef embættisins .

Lauk stofnunin rannsókn 97 mála á árinu og beindi 96 af þeim í refsimeðferð á grundvelli rannsókna sinna. Þar af var 60 málum vísað til meðferðar hjá héraðssaksóknara en 27 málum til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd. Í 9 málum var gengist undir sekt hjá skattrannsóknarstjóra.

Rannsókn þessara mála var lokið ýmist á árinu 2018 eða árinu 2017, en nú er ólokið refsimeðferð í 104 málum hjá embættinu. Þar af eru 98 mál í meðferð hjá héraðssaksóknara en 6 hjá yfirskattanefnd.